Úkraínumenn hafa stillt upp myndum af ónýtum knattspyrnuleikvangi sínum í Kharkiv í miðborg München en það var einn af keppnisvöllunum á EM karla 2012 sem var haldið í Úkraínu og Póllandi.
Andriy Shevshenko, forseti úkraínska knattspyrnusambandsins og einn besti framherjinn í sögu Úkraínu, sýndi gestum og gangandi myndirnar en völlurinn var eyðilagður í maí í síðasta ári í loftárás Rússa á Kharkiv.
Shevshenko skýrði frá því að alls hefðu 77 knattspyrnuleikvangar í Úkraínu verið eyðilagðir eða stórskemmdir í árásum Rússa frá því þeir réðust inn í landið í febrúar 2022.
„Völlurinn í Kharkiv var gjöreyðilagður með rússneskum flugskeytum. Þarna bjó úkraínska landsliðið sig undir EM 2021 og völlurinn var byggður fyrir EM 2012 þar sem Holland, Þýskaland og Portúgal spiluðu sína leiki," sagði Shevchenko.
Úkraína mætir Rúmeníu í München í dag, í fyrsta leik liðanna í E-riðlinum á EM, og leikurinn hefst klukkan 13.