Tyrkland hafði betur gegn Georgíu, 3:1, í fyrstu umferð F-riðilsins á Evrópumóti karla í knattspyrnu í Dortmund í dag.
Portúgal og Tékkland mætast í hinum leik F-riðilsins en hann er seinna í kvöld.
Mörk Tyrkja skoruðu Mert Müldür, Arda Güler og varamaðurinn Kerem Akturkoglu. Mark Georgíu skoraði Georges Mikautadze.
Mert Müldür átti frábært skot í stöngina rétt utan teigs á tíundu mínútu. Þá fékk hann boltann frá Kenan Yildiz og smellti boltanum í innanverða stöngina en hann fór meðfram markinu.
Müldür er víst sérlega góður skotmaður en á 26. mínútu kom hann Tyrkjum yfir með stórkostlegu marki.
Þá barst boltinn til hans rétt innan teigs og hann smellti honum á utanfótar og á lofti upp í nærhornið og kom Tyrkjum yfir.
Yildiz kom boltanum í netið aðeins nokkrum mínútum síðar og Tyrkir misstu sig í fögnuðinum. Í nánari athugun hjá VAR-sjánni sást hins vegar að Yildiz var rangstæður þegar hann fékk boltann beint fyrir framan markið og markið var dæmt af.
Georges Mikautadze jafnaði metin á 32. mínútu. Þá fékk hann boltann eftir góðan undirbúning frá Giorgi Kochorashvili og skaut á nærstöngina. Mert Günok, markvörður Tyrkja, hefði átt að gera mun betur en boltinn fór undir hann. 1:1.
Vonarstjarna Tyrkja Arda Güler kom Tyrkjum yfir á nýjan leik á 66. mínútu með mögnuðu marki. Þá vann hann boltann á vallarhelmingi Georgíu og smellti honum upp í fjærhornið af 20 metra færi, 2:1.
Kochorashvili fór frábærlega með boltann inn í teig Tyrklands á 71. mínútu. Hann lyfti honum síðan yfir Günok, markvörð Tyrkja, en í slána fór boltinn.
Eftir nokkur dauðafæri Georgíumanna tryggði Kerem Akturkoglu sigur Tyrkja undir blálokin.
Þá átti Georgíu hornspyrnu þar sem allir, þar á meðal markvörðurinn voru sendir fram. Tyrkir komu boltanum í burtu og hann barst til Akturkoglu sem keyrði upp allan völlinn og renndi boltanum í netið, 3:1, og sigur Tyrklands var staðfestur.
Byrjunarliðin:
Tyrkland: (4-3-3)
Mark: Mert Günok
Vörn: Mert Müldür (Zeki Celik 85.), Samat Akaydin, Abdülkerim Bardakci, Ferdi Kadioglu
Miðja: Kaan Ayhan (Merih Demiral 79.), Orkun Kökcu, Hakan Calhanoglu
Sókn: Arda Güler (Yusuf Yazici 79.), Baris Alper Yilmaz, Kenan Yildiz (Kerem Akturkoglu 85.)
Georgía: (3-5-2)
Mark: Giorgi Mamardashvili
Vörn: Sofomon Kverkveliya (Budu Zivzivadze 85.), Guram Kashia, Lasha Dvali
Miðja: Otar Kakabadze, Giorgi Kochorashvili, Anzor Mekvabishvili, Giorgi Chakvetadze (Zuriko Davitashvili 74.), Heorhiy Tsitaishvili (Luka Lochoshvili 74.)
Sókn: Georges Mikautadze, Khvicha Kvaratskhelia