Danmörk og England skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í annarri umferð C-riðils Evrópumóts karla í knattspyrnu í Frankfurt í Þýskalandi í dag.
England er á toppi riðilsins með fjögur stig og Danmörk er í öðru sæti með tvö stig líkt og Slóvenía sæti neðar. Serbía er á botninum með eitt stig.
Geta því öll fjögur liðin enn tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum og stendur England vitanlega best að vígi.
Bæði lið áttu í stökustu vandræðum með lausan völlinn í Frankfurt í dag, sem kom þó ekki í veg fyrir bráðskemmtilegan leik.
Danmörk byrjaði leikinn ögn betur og hélt boltanum vel, án þess þó að skapa sér nein færi að ráði.
Fyrsta færi leiksins fékk Phil Foden á 13. mínútu. Hann lék þá laglega á Pierre-Emile Höjbjerg, tók skotið hægra megin í vítateignum en það fór naumlega framhjá samskeytunum fjær.
Fimm mínútum síðar náði England forystunni þegar Harry Kane skoraði.
Jude Bellingham gaf þá inn fyrir á Kyle Walker, Victor Kristiansen virtist ætla að ná til boltans á undan en sá ekki Walker sem hirti boltann, renndi honum fyrir, þar fór boltinn af Jannik Vestergaard og barst til Kane sem skoraði auðveldlega við markteiginn.
Í stað þess að leggja árar í bát gaf markið Dönum byr undir báða vængi. Jonas Wind átti lausan skalla á 25. mínútu sem Jordan Pickford greip og skot á 32. mínútu sem Marc Guéhi komst fyrir áður en boltinn hafnaði ofan á markinu.
Skömmu síðar, á 34. mínútu, jafnaði Morten Hjulmand metin fyrir Dani með sínu fyrsta landsliðsmarki í níunda landsleiknum.
Kane átti þá slæma sendingu af vinstri kantinum á eigin vallarhelmingi yfir á hægri kantinn, beint á Kristiansen. Hann renndi boltanum til hliðar á Hjulmand sem lét einfaldlega vaða af um 30 metra færi og þrumuskot hans fór í stöngina og inn, óverjandi fyrir Pickford.
Phil Foden gerði sig aftur líklegan hjá Englandi en skot hans fyrir utan vítateig fóru í fangið á Kasper Schmeichel og yfir markið.
Hjulmand átti svo annað skot fyrir utan vítateig sem fór í varnarmann og aftur auk þess sem Höjbjerg reyndi skot fyrir utan teig sem fór beint á Pickford.
Ekki var meira skorað eftir bráðskemmtilegan fyrri hálfleik og staðan því 1:1 í leikhléi.
Síðari hálfleikurinn var ekki jafn fjörugur en bæði lið fengu þó færi til þess að tryggja sér sigurinn.
Á 53. mínútu fékk Saka góða sendingu fram frá Trent Alexander-Arnold, náði ekki góðri fyrstu snertingu og þurfti að skalla skoppandi boltann hægra megin í teignum, litlu munaði að boltinn færi í netið en hann hafnaði í hliðarnetinu.
Skömmu síðar, á 56. mínútu, átti Foden frábært skot fyrir utan vítateig eftir sendingu frá Saka en það hafnaði í stönginni áður en Saka skaut yfir undir pressu eftir að hafa náð frákastinu.
Varamaðurinn Mikkel Damsgaard lét reyna á Pickford um miðjan síðari hálfleikinn en fast skot hans á lofti fór beint á enska markvörðinn.
Varamaðurinn Ollie Watkins fékk svo gott færi í liði Englands á 71. mínútu þegar Bellingham sendi hann einan í gegn, Watkins náði skotinu úr þröngu færi hægra megin í vítateignum en Schmeichel gerði vel í að koma út á móti og verja með fótunum.
Tveimur mínútum síðar reyndi Pierre-Emile Höjbjerg skot fyrir utan vítateig sem stefndi niður í markhornið en Pickford varði vel til hliðar.
Eftir þetta fjaraði leikurinn nokkurn veginn út og niðurstaðan því 1:1 jafntefli.