Harry Kane kom Englandi yfir gegn Danmörku í leik liðanna sem nú stendur yfir í Frankfurt á Evrópumótinu í fótbolta.
Þar með hefur Kane skorað fyrir England á fjórum mismunandi stórmótum, HM 2018, EM 2020, HM 2022 og EM 2024.
Aðeins tveir landsliðsmenn Englands hafa áður leikið þennan leik en það eru þeir Michael Owen og Wayne Rooney.
Þá er þetta þrettánda mark Kane á stórmóti og þar er hann markahæstur Englendinga. Gary Lineker er næstur með 10 mörk og Alan Shearer skoraði níu.
Kane bætti jafnframt markamet sitt fyrir enska landsliðið en þetta er hans 64. mark í 93 landsleikjum. Hann fór fram úr Wayne Rooney fyrir nokkru síðan en Rooney skoraði 53 mörk.