Austurríki vann D-riðilinn – Frakkland og Holland líka áfram

Austurríki gerði sér lítið fyrir og vann D-riðil Evrópumóts karla í knattspyrnu með því að leggja Holland að velli, 3:2, í stórskemmtilegum leik í lokaumferð riðilsins í Berlín í dag. Á sama tíma gerðu Frakkland og Pólland jafntefli í Dortmund, 1:1.

Það þýðir að Austurríki vann riðilinn með sex stigum, Frakkland vann sér inn fimm stig í öðru sæti og Holland hafnaði í þriðja sæti með fjögur stig. Öll þrjú eru komin áfram í 16-liða úrslit.

Austurríki hóf leikinn af miklum krafti og uppskar mark strax á sjöttu mínútu.

Alexander Prass, sem hafði ógnað nokkrum sinnum með hættulegum fyrirgjöfum, átti þá eina slíka með jörðinni eftir snarpa sókn, sóknarmaðurinn Donyell Malen var mættur í eigin vítateig til að hjálpa en vildi ekki betur til en svo að hann tæklaði boltann í eigið net, 1:0.

Austurríkismaðurinn Marko Arnautovic fagnar sjálfsmarki Hollendingsins Donyells Malens.
Austurríkismaðurinn Marko Arnautovic fagnar sjálfsmarki Hollendingsins Donyells Malens. AFP/Odd Andersen

Austurríki var í kjölfarið áfram með stjórn á leiknum en Holland komst loks í sína fyrstu almennilegu sókn eftir tæplega stundarfjórðungs leik.

Eftir góða sókn kom Tijjani Reijnders boltanum á Cody Gakpo sem lagði hann aftur út á Reijnders sem var í kjörstöðu í miðjum vítateignum en hitti boltann afleitlega og skotið framhjá marki Austurríkis.

Um miðjan fyrri hálfleikinn fékk Malen svo kjörið tækifæri til þess að bæta upp fyrir mistök sín og jafna metin fyrir Holland. Hann slapp þá einn í gegn en skaut framhjá úr sannkölluðu dauðafæri.

Á 38. mínútu komst Austurríki nálægt því að tvöfalda forystu sína. Marcel Sabitzer átti fyrst þrumuskot fyrir utan vítateig sem Bart Verbruggen varði til hliðar.

Austurríkismenn héldu boltanum, sem barst svo til fyrirliðans Marko Arnautovic sem var einn gegn Verbruggen en hitti boltann ekki og hollenski markvörðurinn náði svo að slá boltann frá.

Staðan var því 1:0, Austurríki í vil, í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleiks, á 47. mínútu, jafnaði Holland metin.

Hollendingar geystust þá í sókn, varamaðurinn Xavi Simons lagði boltann til hliðar á Gakpo sem lék á varnarmann Austurríkis og lagði boltann fyrir sig í leiðinni vinstra megin í teignum áður en hann smellti boltanum í fjærhornið, 1:1.

Stuttu síðar, á 53. mínútu, var fyrirliðinn Virgil van Dijk nálægt því að koma Hollandi yfir en skalli hans eftir hornspyrnu Gakpo frá vinstri fór af öxlinni á varnarmanni Austurríkis og framhjá markinu.

Cody Gakpo fagnar eftir að hafa jafnað metin fyrir Hollendinga …
Cody Gakpo fagnar eftir að hafa jafnað metin fyrir Hollendinga í 1:1. AFP/Odd Andersen

Eftir tæplega klukkutíma leik náði Austurríki svo forystunni á ný.

Florian Grillitsch komst þá upp að endamörkum vinstra megin í vítateignum, gaf fyrir á Romano Schmid sem náði föstum skalla sem fór í Stefan de Vrij og í netið en fékk Schmid markið þó skráð á sig. Staðan orðin 2:1.

Romano Schmid fagnar eftir að hafa komið Austurríki í 2:1 …
Romano Schmid fagnar eftir að hafa komið Austurríki í 2:1 gegn Hollandi. AFP/Christopher Simon

Stundarfjórðungi fyrir leikslok jafnaði Memphis Depay metin að nýju fyrir Holland. Varamaðurinn Wout Weghorst vann þá skallabolta inni í vítateignum, fann þar Depay sem tók vel við boltanum og skoraði með laglegu skoti á lofti, 2:2.

Markið var upphaflega dæmt af vegna hendi á Depay en eftir athugun VAR reyndist það alls ekki rétt og markið fékk að standa.

Memphis Depay, með hvíta bandið, jafnar fyrir Hollendinga í 2:2.
Memphis Depay, með hvíta bandið, jafnar fyrir Hollendinga í 2:2. AFP

Fimm mínútum síðar tryggði Sabitzer Austurríki sigurinn. Varamaðurinn Christoph Baumgartner sendi Sabitzer þá einan í gegn vinstra megin í vítateignum, hann tók hnitmiðað vinstri fótar skot sem hafnaði uppi í þaknetinu og staðan orðin 3:2, sem reyndust lokatölur.

Tvö vítaspyrnumörk

Í leik Frakklands og Póllands réðu Frakkar lögum og lofum í fyrri hálfleik en gekk bölvanlega að koma boltanum framhjá Lukasz Skorupski í marki Póllands, sem fór á kostum í hálfleiknum.

Varði Skorupski nokkrum sinnum frábærlega, allt dauðafæri í vítateignum. Þar á meðal varði hann tvisvar frá fyrirliðanum Kylian Mbappé, einu sinni frá Ousmane Dembélé og einu sinni frá Theo Hernandez.

Besta færi Póllands í fyrri hálfleiknum fékk fyrirliðinn Robert Lewandowski eftir rúmlega hálftíma leik. Hann náði þá stórhættulegum skalla sem stefndi niður í bláhornið en William Saliba náði að slæma fætinum í boltanum og koma honum þannig framhjá markinu, þó Pólverjar hafi á einhvern undarlegan hátt ekki fengið hornspyrnu fyrir vikið.

Þar með var staðan markalaus í hálfleik.

Í síðari hálfleik héldu Frakkar áfram að þjarma að Pólverjum og þar á meðal varði Skorupski enn einu sinni frá Mbappé.

Hann tók þá hnitmiðað skot vinstra megin úr teignum sem stefndi niður í bláhornið fjær en pólski markvörðurinn varði til hliðar.

Stuttu síðar, á 55. mínútu, fékk Frakkland dæmda vítaspyrnu þegar Dembélé fór auðveldlega framhjá Jakub Kiwior sem felldi hann innan vítateigs.

Mbappé steig á vítapunktinn og að þessu sinni kom Skorupski engum vörnum við, fór í rangt horn og Frakkar náðu forystunni á 56. mínútu, 1:0.

Kylian Mbappé fagnar eftir að hafa komið Frökkum yfir gegn …
Kylian Mbappé fagnar eftir að hafa komið Frökkum yfir gegn Pólverjum. AFP/Osan Koze

Bradley Barcola fékk þröngt færi vinstra megin í vítateignum eftir rúmlega klukkutíma leik en enn varði Skorupski.

Á 79. mínútu fékk Pólland dæmda vítaspyrnu þegar Dayot Upamecano braut á varamanninum Karol Swiderski innan vítateigs.

Lewandowski steig á vítapunktinn en Mike Maignan varði spyrnu hans. VAR úrskurðaði hins vegar að Maignan hafi verið of snöggur af marklínunni og fékk Lewandowski annað tækifæri, sem hann nýtti með því að skora með góðri spyrnu.

Robert Lewandowski jafnar fyrir Pólverja gegn Frökkum úr vítaspyrnu.
Robert Lewandowski jafnar fyrir Pólverja gegn Frökkum úr vítaspyrnu. AFP

Niðurstaðan því að lokum 1:1 jafntefli.

Fylgst var með gangi mála í báðum leikjum í beinni textalýsingu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

EM karla D-riðill opna loka
kl. 17:55 Textalýsing Leikjum lokið! Austurríki vinnur riðilinn, Frakkland hafnar í öðru sæti með fimm stig og Holland hafnar í þriðja sæti með fjögur stig! Öll fara þau áfram í 16-liða úrslit.
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. JÚNÍ

Sviss
16:00
Ítalía
Þýskaland
19:00
Danmörk
Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. JÚNÍ

Sviss
16:00
Ítalía
Þýskaland
19:00
Danmörk
Útsláttarkeppnin