Dó næstum því áður en allt byrjaði

Virgil van Dijk og félagar mæta Rúmenum á EM á …
Virgil van Dijk og félagar mæta Rúmenum á EM á þriðjudaginn. AFP/Gabriel Bouys
Fljótlega eftir að Virgil van Dijk hafði unnið sér sæti í byrjunarliði Groningen í heimalandi sínu, Hollandi, birtist honum áskorun af allt öðrum toga. Hann veiktist og á aðeins örfáum dögum fór það sem virtist saklaus magaverkur yfir í það að vera grafalvarleg veikindi.
Dick Lukkien, sem þá var þjálfari hjá Groningen, man vel eftir þessu. „Virgil veiktist en gerði sér ekki grein fyrir alvöru málsins, hélt hann væri bara með einhverja umgangspest. Eftir nokkra daga heima var hann orðinn sárkvalinn og var fluttur á spítala. Þar fundu menn hins vegar ekkert alvarlegt að og sendu hann aftur heim.

En verkurinn bara versnaði og þegar móðir hans kom í heimsókn sá hún strax hversu alvarleg staðan var. Saman fóru þau á annan spítala og það var eins gott, ekki hefði mátt bíða í hálfan dag í viðbót. Snöggt viðbragð móður hans skipti sköpum; hún fann á sér að eitthvað mikið væri að,” segir Lukkien.
Á seinni spítalanum greindu læknarnir Van Dijk með botnlangabólgu en einnig lífhimnubólgu og nýrnaeitrun og skáru hann upp með hraði.
Van Dijk er fyrirliði Liverpool á Englandi.
Van Dijk er fyrirliði Liverpool á Englandi. AFP/Paul Ellis

Aðgerðin gekk vel, að hluta til vegna þess hversu vel á sig kominn Van Dijk var en læknar útskýrðu fyrir honum að hann hefði verið heppinn og að eldri menn í lakara formi hefðu ekki lifað af slíkt inngrip. Eigi að síður var ástand hans áfram alvarlegt og hann var áfram um kyrrt á spítalanum.

Líf mitt var í hættu

Mörgum mánuðum síðar ræddi hann veikindin við hollenska vikuritið Voetbal International:
„Ég man vel eftir að hafa legið í sjúkrarúminu. Allt sem ég kom auga á voru slöngur sem tengdar voru við mig. Líkami minn var í henglum, ég gat ekkert gert. Við slíkar aðstæður læðast verstu sviðsmyndir að manni. Í fyrsta skipti á ævinni var knattspyrnuferill minn algjört aukaatriði. Líf mitt var í hættu. Við mamma báðum til Guðs og ræddum hina ýmsu möguleika. Á einum tímapunkti var ég látinn skrifa undir skjöl, það var eins konar yfirlýsing. Myndi ég deyja rynni hluti af peningum mínum til mömmu. Auðvitað vildi enginn ræða slíka hluti en við urðum að gera það. Öllu hefði getað verið lokið …”
Van Dijk hélt lífi en líkami hans var afar veikburða og enn berskjaldaður mörgum vikum síðar. Lukkien var að vonum mjög brugðið: „Þegar hann sneri aftur til félagsins var hann bara skugginn af sjálfum sér. Til allrar hamingju komum við honum þó fljótt á réttan kjöl. Hann lék ekki meira þennan veturinn en var klár í næsta tímabil um sumarið.”
Ítarlega er fjallað um feril Virgils van Dijks í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og rætt við gamla þjálfara hans og samherja. 
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

LEIKIR Í DAG - 30. JÚNÍ

Spánn
19:00
Georgía
England
16:00
Slóvakía
Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 30. JÚNÍ

Spánn
19:00
Georgía
England
16:00
Slóvakía
Útsláttarkeppnin