Getur Rangnick stýrt Austurríki til sigurs á EM?

Maximilian Wöber, leikmaður Leeds á Englandi, fagnar sigri Austurríkis á …
Maximilian Wöber, leikmaður Leeds á Englandi, fagnar sigri Austurríkis á Hollandi ásamt Patrick Pentz markverði. Ljósmynd/Odd Andersen

Austurríki hefur verið eitt af bestu liðum Evrópukeppni karla í fótbolta hingað til og hefur jafnvel verið nefnt til sögunnar af sumum sem mögulegur Evrópumeistari.

Pressufótboltinn sem liðið spilar og öflug liðsheildin hafa fært þeim nokkur eftirtektarverð úrslit, undir stjórn þjálfara sem er sagður hafa hafnað atvinnutilboði frá Bayern München nýlega til þess að einbeita sér að áframhaldandi uppbyggingu austurríska landsliðsins. Og liðið er þegar orðið afar sannfærandi.

Maximilian Wöber man vel augnablikið þegar Ralf Rangnick tók við starfi þjálfara liðsins fyrir tveimur árum. Fyrrverandi stjóri Manchester United hvatti leikmenn sína til þess að óttast engan andstæðing og þeir voru fljótir að tileinka sér þann hugsunarhátt.

„Hann kom með hugarfar sigurvegara en fram að því held ég að við Austurríkismenn höfum litið á okkur sem litla fótboltaþjóð," segir miðvörðurinn.

Við getum sigrað öll lið

„En frá fyrsta degi sagði Ralf: „Við getum sigrað öll lið, sama frá hversu stóru landi þau koma, sama hversu góð þau eru. Ég vil bara vinna." Þetta innprentaði hann í liðið, og ég held að allir leikmenn okkar hafi tileinkað sér þetta."

Leopold Querfeld, samherji hans í vörninni, útskýrir hvernig Rangnick hafi fyllt liðið sjálfstrausti. „Ég held að allir leikmennirnir finni þegar hann talar við okkur að hann treysti okkur, hann treysti hverjum einstökum leikmanni. Allir fá á tilfinninguna að við höfum gæðin til að sigra í dag."

Wöber heldur áfram: „Svona er hans hugarfar, hans talsmáti og hans þjálfunaraðferðir, þar sem allt snýst um að sigra."

Í fyrsta leiknum vann liðið undir stjórn Rangnicks 3:0 útisigur í Þjóðadeildinni á Króötum, liði sem varð þriðja á heimsmeistaramótinu ári síðar. Viku síðar náði það jafntefli gegn Frakklandi, sem náði aðeins að jafna á 83. mínútu með marki frá Kylian Mbappé.

Allir kátir en Ralf var hundóánægður

Wöber lýsir tilfinningunum eftir leikinn. „Allir voru kátir, við gerðum jafntefli við Frakkland, besta lið heims, við heimsmeistarana. En Ralf var hundóánægður. Ég held að þetta sé hugarfarið."

Enda þótt það tæki smá tíma að komast á fullt skrið, hefur Austurríki orðið að liði sem þarf að taka alvarlega. Liðið komst á EM með því að sigra Svía tvisvar og ná jafntefli við Belga á útivelli. Enn meira sannfærandi var sigurinn á Þýskalandi í vináttulandsleik,2:0, seint á síðasta ári, og svo stórsigurinn á Tyrkjum, 6:1, í vináttuleik í mars. Fleira fylgdi í kjölfarið og sigurinn á Hollandi, 3:2, tryggði Austurríki sigur í sínum riðli á EM þar sem liðið mætti líka Frakklandi og Póllandi.

Eftir lokaflautið gegn Hollandi dönsuðu austurrísku leikmennirnir í takt við tónlistina á vellinum og fögnuðu með stuðningsfólki sínu.

Ralf Rangnick fagnar eftir að hans menn lögðu Hollendinga að …
Ralf Rangnick fagnar eftir að hans menn lögðu Hollendinga að velli. Ljósmynd/Odd Andersen

Querfeld gaf sér tíma til að gera upp leikinn áður en hann yfirgaf leikvanginn. „Ég held að lykillinn að sigrinum hafi verið liðsheildin. Við börðumst saman frá fyrstu sekúndu, við byrjuðum leikinn vel og skoruðum líka snemma. Þetta var ekki auðvelt, því við fengum á okkur tvö mörk og vissum að með jafntefli kæmumst við ekki uppfyrir Hollendinga.

En það var frábært að við skyldum alltaf svara fyrir okkur og gáfumst aldrei upp. Ég held að þetta hafi verið frábær leikur hjá okkur."

Höndluðum Hollendingana vel

Wöber útskýrði enn fremur að Austurríki hefði átt svör við sóknarleik Hollendinga síðar í leiknum.

„Mér fannst við ráða ferðinni, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Hollendingarnir virtust bíða eftir því að við gerðum mistök til þess að geta beitt skyndisóknum. Þeir áttu engar sérstakar lausnir þegar þeir voru með boltann. Reyndu bara að koma með langar sendingar, reyndu að finna Memphis Depay, og í framhaldinu að Tijani Reijnders gæti komið með lykilsendingar. Ég held að við höfum höndlað það mjög vel.

En í seinni hálfleik sýndu þeir gæðin í sínu liði þegar þeir voru með boltann, ekki síst í vítateignum með stóra menn eins og Wout Weghorst og Cody Gakpo, og svo hraðann í Donyell Malen og Depay. Þeir búa því yfir miklum gæðum, ég held að þetta hafi verið jafn leikur, en við gátum brugðist við öllu sem þeir hentu í okkur."

Þetta er eitt skref í einu

Wöber, sem leikur með enska liðinu Leeds United, segir að austurríska liðið hafi bætt sig með hverjum leik á EM.

„Þetta er eitt skref í einu, við höfum tekið framförum í hverjum leik. Ég held að þið hafið séð að við vorum dálítið spenntir í fyrsta leiknum, hann gekk ekki nógu vel, sérstaklega ekki þegar við snerum vörn í sókn sem á að vera okkar mesti styrkleiki, en þar vorum við mistækir.

Leopold Querfeld fangar sigrinum gegn Hollandi.
Leopold Querfeld fangar sigrinum gegn Hollandi. Ljósmynd/Odd Andersen

Síðan urðum við að vinna Pólverja til að eiga möguleika í riðlinum, og ég held að við höfum staðið okkur vel (Austurríki vann 3:1). Og gegn Hollandi held ég að við höfum sýnt það sjálfstraust sem við búum yfir og gerir okkur kleift að vinna bestu liðin."

Querfeld, sem gekk nýlega til liðs við Union Berlín, tekur saman helstu karakterseinkenni austurríska liðsins.

„Ég held að allir í stúkunni og við sjónvarpsskjáinn hafi séð að við erum liðsheild. Við spilum hápressu og við erum þétt lið sem gerir allt sem ein heild. Við sækjum saman og við verjumst saman. Ég held að öll lið verði í erfiðleikum með okkur, ég held að við séum búnir að koma okkur á kortið í Evrópu."

Samt eru lykilmenn ekki með

Rangnick hefur augljóslega mikla trú á austurríska landsliðinu fyrst hann hafnaði Bayern München svo hann gæti einbeitt sér að uppbyggingunni í Austurríki.

Frammistaða Austurríkis er enn áhugaverðari þegar litið er til þess að lykilmenn eru ekki með liðinu á Evrópumótinu, eins og David Alaba, Alexander og Xaver Schlager og Sasa Kalajdzic. Alaba er reyndar í hópnum sem fyrirliði á bekknum og hjálpar liðinu heilmikið.

Og í sigrinum gegn Hollendingum skildi Rangnick meira að segja reynda menn eins og Christoph Baumgartner og Konrad Laimer eftir á bekknum til þess að forðast leikbönn en þeir voru þegar komnir með gult spjald. Báðir komu þeir inn á seint í leiknum.

Þetta sýnir hversu mikla trú Rangnick hefur á sínum leikmönnum og Querfeld, sem líka kom inn á sem varamaður, útskýrir að þeir geti spilað mismunandi leikaðferðir þar sem öllum leikmönnum er treyst.

Faglegt umhverfi þar sem leikmenn blómstra

„Hann breytti til í sumum stöðum og setti aðra leikmenn inn. Hann treystir öllum leikmönnum liðsins og þetta er ekki bara Ralf, allt starfsliðið hefur mikil áhrif á okkur og hvetur okkur til dáða í hverjum leik."

Wöber útskýrir hvernig hinir ýmsu meðlimir starfsliðsins vinna vel með Rangnick. „Eins og sálfræðingarnir sem tala um hluti eins og hvatningu liðsins, tengingar og hugarfar. Hann reynir líka að sjá til þess að við eigum nægan frítíma, til dæmis setur hann upp stundir þar sem við getum hitt fjölskyldur okkar."

Allir þessir þættir mynda faglegt umhverfi þar sem leikmennirnir geta blómstrað. Querfeld segir: „Hann fékk okkur til að trúa því að við gætum unnið Frakka. Við gerðum það ekki en svo unnum við Holland. Þetta eru þjóðir sem taldar eru betri en við, en sem liðsheild með gott leikskipulag getum við unnið þær. Þetta er okkar mesti styrkur."

Marcel Sabitzer skorar sigurmarkið gegn Hollandi, 3:2.
Marcel Sabitzer skorar sigurmarkið gegn Hollandi, 3:2. Ljósmynd/Gabriel Bouys

Vilja reyna að berjast um bikarinn

Spurður hvort Austurríki geti unnið mótið er Querfeld metnaðarfullur en með báða fætur á jörðinni. „Við eigum stóra drauma en tökum einn leik í einu."

Hvort þeir geti orðið Evrópumeistarar verður að koma í ljós, en í það minnsta hefur Rangnick innprentað þeim það hugarfar að þeir geti náð lengra en flestir halda, og að þeir séu komnir til Þýskalands til þess að reyna að berjast um bikarinn.

„Þannig er hugarfarið, einmitt," segir Wöber. "Ég held að hann hafi sagt eitthvað á þessa leið: Við viljum vera besta liðið, kannski verður niðurstaðan sú að við verðum ekki meistarar en sagt segja allir að mótinu loknu: Allt í fína, þeir voru með besta liðið.

Þegar þú spilar gegn bestu liðum heims, eða Evrópu, muntu lenda í miklum vandræðum, og í hverjum einstökum leik geturðu lent í erfiðleikum því allt getur gerst. En við vitum að með okkar gæði og okkar liðsanda er allt mögulegt."

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 2. JÚLÍ

Rúmenía
16:00
Holland
Austurríki
19:00
Tyrkland
Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 2. JÚLÍ

Rúmenía
16:00
Holland
Austurríki
19:00
Tyrkland
Útsláttarkeppnin