Spánverjar munu leika til úrslita á Evrópumóti karla í knattspyrnu eftir sigur á Frökkum í undanúrslitum, 2:1. Það kemur í ljós á morgun hvort Spánverjar mæti Englendingum eða Hollendingum í úrslitaleiknum en þau mætast á morgun.
Leikurinn fór mjög fjörlega af stað en Spánverjar voru meira með boltann á meðan Frakkar voru hættulegir í skyndisóknum. Fabian Ruiz, miðjumaður Spánar, fékk fyrsta færi leiksins en hann skallaði boltann þá yfir markið af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Lamine Yamal frá hægri.
Það voru hins vegar Frakkar sem skoruðu fyrsta markið á 9. mínútu. Kylian Mbappé fékk boltann þá vinstra megin, setti hann á hægri og smellti honum fyrir markið. Þar hitti hann beint á kollinn á Randal Kolo Muani sem var óvaldaður á fjærsvæðinu og átti ekki í neinum vandræðum með að skalla boltann í hægra hornið af stuttu færi.
Á 21. mínútu jöfnuðu Spánverjar metin og var markið af dýrari gerðinni. Hinn 16 ára gamli Lamine Yamal fékk boltann þá í kyrrstöðu fyrir utan teiginn, tók smá mjaðmahreyfingu og setti boltann á vinstri fótinn. Hann átti svo frábært skot upp í vinstra hornið í stöngina og inn, algjörlega óverjandi fyrir Mike Maignan í marki Frakklands. Með þessu marki varð Yamal yngsti markaskorari í sögu Evrópumótsins.
Spánverjar náðu svo forystunni einungis fjórum mínútum síðar. Dani Olmo, sem kom inn í byrjunarliðið fyrir meiddan Pedri, gerði þá frábærlega hægra megin í teignum, fór illa með Aurelien Tchouameni og kom sér í skotfæri. Skotið var fast og stefndi niður í vinstra hornið þegar Jules Kounde rak fótinn í boltann og setti hann í netið. Markið skráist þó á Olmo þar sem boltinn var á leiðinni á markið.
Eftir annað mark Spánverja róaðist leikurinn töluvert og skiptust liðin á að halda í boltann, án þess þó að skapa sér nein markverð færi. Staðan var því 2:1, Spánverjum í vil, þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Frakkar mættu af meiri krafti út í seinni hálfleikinn en leikurinn spilaðist eins og við mátti búast þar sem þeim vantaði mark. Spánverjar voru þéttir til baka en reyndu að nýta sínar sóknir vel þegar færi gáfust til.
Bæði Aurelien Tchouameni og Dayot Upamecano fengu góð skallafæri fyrir Frakka eftir hornspyrnur en báðum mistókst þeim að koma boltanum í netið. Tchouameni skallaði boltann beint á Unai Simon í marki Spánar en Upamecano setti boltann framhjá markinu.
Þegar leið á seinni hálfleikinn náðu Spánverjar þó meiri stjórn og voru töluvert meira með boltann. Liðið skapaði sér fá færi en Frakkar komust lítið í boltann og sköpuðu því lítið sem ekki neitt heldur.
Á 86. mínútu fékk Kylian Mbappé svo kjörið tækifæri til að jafna metin. Hann slapp þá einn gegn varamanninum Dani Vivian og gerði í raun og veru allt rétt fram að skotinu. Hann keyrði á Vivian, kom sér í mjög gott skotfæri á hægri fætinum en þá brást honum bogalistin og boltinn hátt yfir markið. Frábært færi, sérstaklega fyrir mann eins og Mbappé sem hefur svo oft skorað úr svona stöðu áður.
Síðustu mínútur leiksins voru svo rólegri en við var að búast því Frakkar áttu hreinlega í vandræðum með að ná boltanum af Spánverjum sem léku af þvílíkri skynsemi. Svo fór að Frakkar náðu ekki að jafna og Spánverjar tryggðu sér því sæti í úrslitaleiknum.
Annað kvöld mætast svo England og Holland í hinum undanúrslitaleiknum en þá kemur í ljós hverjir andstæðingar Spánverja verða.