Spánn og England mætast í úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu í Berlín í kvöld. Luis de la Fuente, þjálfari spænska landsliðsins, segir að hvorugt liðið sé sigurstranglegra en hitt fyrir viðureignina í kvöld.
„Við vitum að það er enginn sigurstranglegri. Þetta er mjög jafn leikur, eins og hinir leikirnir sem við höfum spilað,“ sagði de la Fuente.
De la Fuente gerir miklar kröfur til liðsins í kvöld.
„Við veltum okkur ekki upp úr veðmálasíðum og þess háttar en við vitum að ef við spilum ekki betur en við höfum gert hingað til, ef við erum ekki einbeittir og gerum mistök, þá getum við ekki unnið,“ sagði de la Fuente.
Úrslitaleikurinn milli Spánar og Englands hefst klukkan 19 að íslenskum tíma í kvöld.