Spænski landsliðsmaðurinn Jesus Navas tilkynnti í gær að úrslitaleikurinn á Evrópumótinu í knattspyrnu í kvöld verði síðasti landsleikur hans fyrir spænska landsliðið.
Spánn mætir Englandi á Ólympíuleikvangnum í Berlín klukkan 19 í kvöld.
Navas, sem er 38 ára gamall, var hluti af sigurliði Spánar á Heimsmeistaramótinu 2010 í Suður Afríku og Evrópumótinu 2012 í Póllandi og Úkraínu.
Navas á 56 leiki að baki með spænska landsliðinu en hann varð elsti leikmaður í sögu landsliðsins á Evrópumótinu í sumar.
Samningur Navas með félagsliðinu Sevilla rennur út í desember á þessu ári en eftir það mun hann fá annað hlutverk innan félagsins.