Evrópumeistarinn Pedri, knattspyrnumaður stórveldisins Barcelona, verður frá í fimm vikur vegna meiðsla sem hann lenti í gegn Þýskalandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Þýskalandi fyrr í þessum mánuði.
Pedri varð Evrópumeistari með Spáni í fyrradag en spænska liðið sigraði Englendinga, 2:1, í úrslitaleiknum í Berlín.
Pedri tók ekki þátt í leiknum vegna meiðsla. Hann meiddist snemma í átta liða úrslitum eftir brot Toni Kroos á honum.
Spænskir miðlar greina nú frá því að Pedri verði í burtu í fimm vikur en hann hefur glímt mikið við meiðsli síðustu ár.
Pedri missir af undirbúningstímabilinu með Barcelona og mjög líklega fyrsta leik liðsins gegn Valencia í spænsku 1. deildinni 17. ágúst.