"Ásgeir Örn Hallgrímsson er fyrst og fremst sóknarmaður, hann er ekki góður varnarmaður. Það getur vel verið að hann sé toppformi en það kemur ekki fram í hans leik með Lemgo nú um stundir," sagði Viggó Sigurðsson, landsliðsþjálfari, spurður um af hverju hans gamli lærisveinn hjá Haukum hljóti ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans að þessu sinni.
"Síðan má ekki gleyma því að um þessar mundir er landsliðið afar vel mannað af leikmönnum í þeirri stöðu sem Ásgeir leikur í. Þar á ofan geta þeir allir leikið betur í vörninni en Ásgeir. Þegar við bætist að Ásgeir stendur sig ekki í sóknarleiknum með Lemgo þá einfaldlega lendir hann fyrir aftan Alexander Petersson, Einar Hólmgeirsson og Ólaf Stefánsson í röðinni," segir Viggó.