HSÍ sækir ekki um EM

Einar Örn Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ.
Einar Örn Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki stendur til hjá Handknattleikssambandi Íslands að sækja um að halda Evrópumót kvenna í handknattleik. Að sögn Einars Þorvarðarsonar, framkvæmdastjóra HSÍ, þá fékk sambandið send umsóknargögn frá Handknattleikssambandi Evrópu, en ekki stendur til að senda inn formlega umsókn um að halda keppnina.

„Við fengum send umsóknargögn frá EHF, aðallega fyrir forvitnissakir, til að kanna hvaða kröfur eru gerðar til mótahaldsins. Af lestri gagnanna er ljóst við getum engan veginn komið til móts við þær kröfur. Sem dæmi má nefna er að sett er sem skilyrði að úrslitaleikir mótsins fari fram í keppnishöll sem rúmar að minnsta kosti 10 þúsund áhorfendur. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem við getum ekki uppfyllt," sagði Einar í samtali við mbl.is í morgun. 

Haft var eftir Tor Lian, forseta Handknattleikssambands Evrópu, á vef TV2 í morgun að Ísland sé á meðal umsækjenda að EM 2014 ásamt  Króatíu, Ungverjalandi, Svíþjóð, Slóvakíu og Tyrklandi.

Sviss, Slóvenía og Tyrkland höfðu sótt um keppna í haust en þegar til átti að taka á þingi EHF í september að greiða atkvæði um hver hreppti hnossið drógu þjóðirnar þrjár umsóknir sínar til baka. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert