Ingimundur Ingimundarson hefur glímt við meiðsl í nára síðan í snemma í síðustu viku og hefur ekkert æft með íslenska landsliðinu í handknattleik í þessari viku. Hann lék að vísu með því í fjögurra landa mótinu í Danmörku um síðustu helgi. Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði í gær að Ingimundur hefði verið sprautaður í nárann í fyrradag.
„Hann mun ekkert æfa með okkur fyrr en á sunnudag. Þá sjáum við til,“ sagði Guðmundur sem vildi lítið gera úr meiðslum annarra leikmanna íslenska landsliðsins á fundi með blaðamönnum í gær.
Vitað er að Alexander hefur fundið til eymsla í vinstri öxl. Þá hefur Arnór Atlason verið slæmur í baki síðan í haust. Guðjón Valur Sigurðsson fyrirliði fékk högg á lærvöðva í mótinu um síðustu helgi. Hann hefur jafnað sig og er klár í slaginn með landsliðinu að vanda. iben@mbl.is