Betri fréttir eru nú af heilsufari landsliðsmannsins Arons Pálmarssonar en hann gat ekki spilað síðari vináttuleikinn gegn Þjóðverjum í gær vegna meiðsla í baki.
„Aron var í meðhöndlun í morgun hjá sjúkraþjálfurum okkar og hann er strax orðinn betri. Þetta lítur betur út í dag heldur en í gær. Hann æfði ekki með okkur í dag en ég geri mér vonir um að hann geti verið með okkur á síðari æfingunni á morgun,“ sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is.
„Það er ekki komið að þeim tíma að kalla inn nýjan mann í hópinn og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á að Aron nái sér í tæka tíð,“ sagði Geir en landsliðið æfir í vikunni í Þýskalandi áður en það heldur til Króatíu en fyrsti leikur íslenska liðsins á Evrópumótinu í Króatíu verður gegn Svíum á föstudaginn.
Spurður hvort aðrir leikmenn í hópnum séu heilir heilsu eftir leikina tvo við Þjóðverjana sagði Geir:
„Menn eru með þessa klassísku pústra og eru lemstraðir eftir þessa tvo líkamlega hörðu leiki við Þjóðverjana. Fyrir marga var þetta mikill veggur að hlaupa á enda gríðarlegir líkamsburðir sem búa í þessu þýska liði.“