Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson segist vera hrærður yfir viðbrögðum félaga sinna í handboltalandsliðinu í tilefni þess að hann sló markamet Ungverjans Péters Kovács í Þýskalandi á dögunum.
„Þessu hafði verið ýtt rosalega mikið að manni síðustu mánuði og því erfitt að segja að ég hafi ekki verið meðvitaður um stöðuna. Ég reyndi hins vegar eins og ég gat að halda þessu frá mér vegna þess að það hefur aldrei verið markmið mitt að setja markamet í hópíþróttum. Ég er hins vegar ótrúlega stoltur og hrærður yfir viðbrögðum strákanna þegar ég náði meti. Ég hefði verið til í að ná þessu við aðrar aðstæður en að vera níu mörkum undir á móti Þjóðverjum í Þýskalandi. En viðbrögð strákanna og liðsins sýna manni að þetta er ekki sjálfsagt. Að þetta þyki merkilegt snertir við manni. Fyrir landsleiki hefur aldrei verið markmið hjá mér að skora ákveðið mörg mörk en ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að njóta trausts liðsfélaga, þjálfara og sambandsins í gegnum árin. Ég vona að ég geti borgað það til baka með einhverjum hætti,“ sagði Guðjón Valur þegar mbl.is spurði hann út í áfangann í Split í dag en þar mætir Ísland liði Svíþjóðar í fyrsta leiknum á EM 2018.
Eins og fram hefur komið fór Guðjón í fyrsta skipti á stórmót með A-landsliðinu árið 2000 og var það einnig í Króatíu. Finnst honum ekki einkennilegt til þess að hugsa að liðin séu átján ár frá frumrauninni? „Jú og kannski í ljósi þess að mér líður ekki eins og ég sé kominn á endastöð eða á síðustu dropunum. Ég hef alltaf einbeitt mér að því að lifa í núinu. Við svekkjum okkur ekki á síðasta leik og hugsum fram á veginn. Maður tekur einn dag fyrir í einu. Þá gengur manni ágætlega. En eins og þú segir þá er hálffáránlegt að hugsa til fyrsta mótsins og með hverjum maður var þar. Hversu langyngstur ég var þá og langt frá mörgum í liðinu í aldri. Ég held að enginn í því liði hafi verið jafn gamall og ég er í dag. Ef maður setur þetta í það samhengi þá er þetta óneitanlega sérstakt.“
Guðjón segist ávallt vera bjartsýnn í aðdraganda stórmóta. „Ég er alltaf bjartsýnn og hef alltaf verið. Ég hlakka til. Spennan og fiðringurinn er til staðar eins og það á að vera,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson ennfremur við mbl.is.