Segja má að það hafi komið í hlut Kristjáns Andréssonar, landsliðsþjálfara Svía, að senda Íslendinga úr keppni á EM í handbolta í Króatíu.
Kristján var þó auðvitað bara með hugann við það að stýra Svíum til frækins sigurs á Króötum, sem tókst, og sigurinn þýðir að Svíar eiga ágæta möguleika á að vinna til verðlauna á EM í fyrsta sinn í 16 ár.
„Maður hugsaði ekkert um þetta [innsk.: hugsanleg örlög Íslands] þegar leikurinn var í gangi. Við ætluðum okkur alltaf að vinna leikinn við Króata og vorum með það í huga að þannig fengjum við tvö stig með okkur í milliriðilinn,“ sagði Kristján við Morgunblaðið í gær.
„Síðan fékk ég að vita rétt fyrir leik að Íslendingar hefðu tapað sínum leik við Serba með 3 mörkum, svo þá var ljóst að við færum áfram með 4 stig með sigri en 0 stig með tapi. Þegar við höfðum svo unnið og ég áttaði mig á því að Íslendingar færu ekki með okkur hingað til Zagreb þá var það náttúrlega ekkert skemmtilegt. Ég hefði gjarnan viljað taka íslenska landsliðið með okkur, en að sama skapi vorum við bara að gera okkar besta fyrir sænska landsliðið og þetta urðu afleiðingarnar af því,“ sagði Kristján.
Kristján og lærisveinar hans máttu þola tap gegn Íslandi í fyrsta leiknum á EM. Svíar unnu svo Serba 30:25 og einnig heimamenn, 35:31. Aðeins Svíþjóð og Frakkland fóru því í milliriðlakeppnina með 4 stig, en þessi lið mætast á morgun í Zagreb kl. 17.15.
„Við höfum auðvitað bætt okkar leik á mótinu, en að sama skapi þá mættum við frábæru, íslensku liði í fyrsta leiknum. Þeir voru ótrúlega klókir í sóknarleiknum og settu okkur í stöður sem við vildum ekki vera í. Við náðum ekki að vera „agressívir“ og tækla sóknarmenn Íslands, og síðan átti Bjöggi [Björgvin Páll Gústavsson] mjög góðan leik í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var ekki fyrr en að við lentum 10 mörkum undir að við fengum baráttu í vörninni og einföld mörk úr hraðaupphlaupum. Við lærðum mjög mikið af þessum leik. Við erum ekki það góðir að geta spilað illa og unnið leiki gegn liði eins og Íslandi,“ sagði Kristján.
Sjá allt viðtalið við Kristján í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag