Þýskaland vann í kvöld sterkan 35:34-sigur á Frakklandi í undirbúningi liðanna fyrir EM karla í handbolta en liðin mættust í Wetzlar í Þýskalandi.
Frakkar voru sterkari í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 18:14, Frakklandi í vil. Þýskaland neitaði hinsvegar að gefast upp og komst yfir í fyrsta skipti í stöðunni 27:26.
Eftir mikla spennu á lokakaflanum fagnaði Þýskaland sigri en Luca Witzke skoraði sigurmarkið á lokasekúndunni. Kai Häfner skoraði átta mörk fyrir Þýskaland og Julius Kühn gerði fimm.
Þýskaland hefur leik á Evrópumótinu 14. janúar gegn Hvíta-Rússlandi en Austurríki og Pólland eru einnig í riðlinum. Frakkland er í riðli með Króatíu, Serbíu og Úkraínu og er fyrsti leikur gegn Króatíu 13. janúar.