Evrópumeistarar Spánar fara vel af stað í titilvörn sinni á Evrópumótinu í handbolta eftir 28:26-sigur á Tékklandi í E-riðli í kvöld.
Spánn var með 14:11 forskot í hálfleik og náði Tékkland að minnka muninn í eitt mark, 20:19, þegar 10 mínútur voru til leiksloka en spænska liðið var sterkara undir lokin. Eduardo Gurbindo var markahæstur hjá Spáni með sex mörk og Jakub Hrstka gerði sex fyrir Tékkland.
Í A-riðli hafði Slóvenía betur gegn Norður-Makedóníu, 27:25. Leikurinn þróaðist svipað og leikur Spánar og Tékklands en staðan í hálfleik var 13:10 og tókst Norður-Makedóníu að minnka muninn í eitt mark um miðbik seinni hálfleiks. Slóvenía var hinsvegar sterkari undir lokin.
Jure Dolenec skoraði fimm mörk fyrir Slóveníu og Cvetan Kuzmanoski átta fyrir Norður-Makedóníu.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leik Rússlands og Litháens í F-riðli, en leikurinn var sá fyrsti sem þær dæma á lokamóti EM karla. Þar hafði Rússland betur, 29:27. Sergei Kosorotov skoraði níu mörk fyrir Rússland og Aidenas Malasinskas fimm fyrir Litháen.
Þá vann Serbía öruggan 31:23-sigur á Úkraínu í C-riðli. Lazar Kukic skoraði sjö mörk fyrir Serbíu, þar af sex í fyrri hálfleik, og Dmytro Horiha gerði sex fyrir Úkraínu.