Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson er líklegur til að skora flest mörk fyrir Ísland á EM í Ungverjalandi sem hefst í kvöld.
Leikstíll Bjarka er þess eðlis að hann verður í það minnsta í hópi markahæstu Íslendinganna ef ekkert kemur upp á. Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik annað kvöld. Mbl.is spurði Bjarka hvort hann væri farinn að finna fyrir fiðringi?
„Jú mikill fiðringur. Sérstaklega núna þegar við erum að koma inn í keppnishöllina í fyrsta skipti. Þetta lítur vel út og við erum vonandi tilbúnir í verkefnið. Við erum mjög spenntir og sérstaklega mikil tilhlökkun eftir þessa æfingatörn þar sem við náðum ekki að spila leik,“ sagði Bjarki Már þegar mbl.is ræddi við hann þegar íslenska liðið var á leið á æfingu í hinni nýju og glæsilegu höll, MVM Dome, þar sem B-riðill keppninnar mun fara fram.
„Ég met okkar möguleika í riðlinum bara góða. Allir tala um að liðið líti vel út núna og margir landsliðsmenn séu á góðum stað. Mér finnst liðið líta fáránlega vel út á æfingum en við vitum alveg að það er ekki eins að vera á æfingum eða í leikjum. Við þurfum að framkvæma það sem við höfum verið að gera. Ég er spenntur að sjá hvernig til tekst en meta möguleikana góða.“
Bjarki verður 32 ára á árinu og hefur fengið að kynnast stórmótum á síðustu árum þegar Guðjón Valur Sigurðsson var að skrifa síðustu kaflana inni sinni mögnuðu handboltasögu. Bjarki hefur raðað inn mörkunum fyrir Lemgo á síðustu árum og varð bikarmeistari í Þýskalandi síðasta sumar. Er hann ekki á frábærum stað til að takast á við stórmót þar sem hann á að vera einn af lykilmönnunum?
„Ég vona það,“ sagði Bjarki og hló en bætti við á alvarlegri nótum. „Hlutverk mitt í landsliðinu hefur stækkað síðustu árin. Þetta er sjötta stórmótið hjá mér og það sjötta í röð. Ég vil taka ábyrg og hef alltaf verið þannig handboltamaður. Ég vil hafa áhrif á leikinn en ekki bara hlaupa fram og til baka. Ég mun reyna allt til að hafa áhrif á leikina og mun fara inn í þessa leiki á sama hátt og ég geri alltaf. Ég vil taka til mín á vellinum og axla ábyrgð. Það verður ekkert öðruvísi á morgun,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is í dag.