Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, byrjar vel á EM í handknattleik karla. Liðið bar sigurorð af Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik sínum í D-riðli í kvöld.
Hvít-Rússar voru með undirtökin stærstan hluta fyrri hálfleiks og náðu mest fimm marka forystu snemma leiks, 7:2
Hvít-Rússar héldu góðri forystu um skeið en eftir að liðið komst í 10:6 tóku Þjóðverjar loks við sér, skoruðu næstu fimm mörk og voru þar með skyndilega komnir yfir í fyrsta skipti í leiknum.
Aftur náðu Hvít-Rússar fínum tökum á leiknum og komust nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir áður en flautað var til leikhlés.
Staðan í hálfleik var 18:17, Hvíta-Rússlandi í vil.
Allt annað var að sjá til Þjóðverja í síðari hálfleik og náðu þeir fljótt þriggja marka forystu, 23:20.
Eftir það létu þeir forystuna ekki af hendi og náðu tvívegis fimm marka forskoti í síðari hálfleiknum.
Sigldi Þýskaland að lokum góðum fjögurra marka sigri, 33:29, í höfn.
Kai Häfner og Marcel Schiller voru markahæstir Þjóðverja með átta mörk hvor.
Uladzislau Kulesh og Mikita Vailupau voru markahæstir Hvít-Rússa með sjö mörk hvor.