Þjóðverjar koma til með að annast dómgæsluna þegar Ísland og Portúgal mætast í B-riðli lokakeppni EM karla í handknattleik í Búdapest í kvöld.
Eru það þeir Robert Schulze og Tobias Tönnies en þeir eru eina þýska dómaraparið á mótinu. Má þá draga þá ályktun að þeir séu fremsta dómarapar Þjóðverja í dag en svo má vera að einhverjir hafi ekki átt heimagengt.
Dómgæslan ætti alla vega að vera í góðum höndum hjá mönnum sem dæma að staðaldri í þýsku bundesligunni.
Þeir gætu haft nóg að gera þar sem stundum hefur verið grunnt á því góða í leikjum Íslands og Portúgals.