Landsliðsmennirnir í handknattleik voru afslappaðir þegar íslensku fjölmiðlamennirnir, og danskir einnig reyndar, heimsóttu þá á liðshótelið í Búdapest í dag.
Skemmst er frá því að segja að engin skakkaföll urðu í átökunum við portúgalska liðið á EM í gær þar sem Ísland hafði betur 28:24. Allir í íslenska hópnum eru heilir og ekkert jákvætt kórónuveirupróf en þátttakendur í mótinu fara mjög reglulega í próf vegna veirunnar skæðu.
Það mætti því kannski segja að ekkert sé að frétta af íslenska hópnum í þeim skilningi en á stórmótum eins og EM teljast engar fréttir á milli leikja vera afskaplega góðar fréttir.
Á mbl.is halda áfram að birtast viðtöl við landsliðsmennina eins og síðustu daga.