Þýskaland er með fullt hús stiga í D-riðli á EM karla í handbolta eftir 34:29-sigur á grönnum sínum í Austurríki í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu í kvöld. Alfreð Gíslason þjálfar þýska liðið.
Austurríki skoraði þrjú fyrstu mörkin en Þjóðverjar voru snöggir að jafna í 5:5 og komast í 6:5 í kjölfarið. Eftir það var mikið jafnræði með liðunum út fyrri hálfleikinn en að lokum var Austurríki með eins marks forskot í hálfleik, 16:15.
Þjóðverjar byrjuðu seinni hálfleikinn á að komast þremur mörkum yfir en Austurríki minnkaði muninn í 26:25. Eftir það kom góður kafli hjá Þjóðverjum sem innsiglaði sigurinn.
Þýskaland er með fjögur stig í toppsæti D-riðils en Pólland getur jafnað Þýskaland á stigum með sigri á Hvíta-Rússlandi síðar í kvöld.