„Ég fékk léttan olnboga í lokin en ekkert alvarlegt,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, í samtali við RÚV eftir 29:28-sigur á Hollandi í æsispennandi leik á Evrópumótinu í kvöld.
Mátti sjá blóð á treyjunni hjá Aroni en hann fékk skurð á augabrúnina undir lok leiks. Ísland náði mest fimm marka forskoti í seinni hálfleik en hollenska liðið neitaði að gefast upp og urðu lokamínúturnar æsispennandi.
„Leikurinn var mjög erfiður. Við vorum með stjórn í 40-45 mínútur en svo skipta þeir í 5-1 og þá riðlast aðeins hjá okkur en samt ekki. Við vorum þó að komast í ágætisfæri. Þeir gerðu áhlaup en sem betur fer datt það okkar megin. Þeir náðu að saxa á okkur þegar við hefðum getað verið meira kúl en að vinna leikinn er það sem skiptir máli og það er það sem við gerðum,“ sagði fyrirliðinn.
Aron fór illa með nokkur góð færi í kvöld en kom svo íslenska liðinu til bjargar í blálokin þegar hann vann boltann í lokasókn Hollendinga. „Ég skuldaði aðeins í lokin og náði að redda mér með ólöglegu blokkinni í lokin. Að ná að klára þetta var lykilatriði og nú er úrslitaleikur á móti Ungverjalandi.“
Eins og Aron bendir á þá mætir Ísland heimamönnum í Ungverjalandi á þriðjudag í afar mikilvægum leik. „Það er frábært lið á heimavelli á leiðinni í úrslitaleik á móti okkur sem er geggjað. Ég get eiginlega ekki beðið eftir því. Við vorum að fylgjast með leiknum áðan og við hefðum getað verið komnir í millriðla með stig en þetta spilaðist svona, sem er miklu skemmtilegra. Við viljum vera í þessu fyrir þessa leiki. Það verður frábært að spila úrslitaleik við þá,“ sagði Aron.