Staðan fyrir lokaumferðina: Riðillinn er galopinn

Íslenska liðið fagnar sigrinum á Hollendingum í kvöld. Úrslitin ráðast …
Íslenska liðið fagnar sigrinum á Hollendingum í kvöld. Úrslitin ráðast á þriðjudag þegar Ísland mætir Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik má tapa leiknum gegn Ungverjum í Búdapest á þriðjudaginn með eins marks mun en það væri samt komið áfram í milliriðil á Evrópumótinu.

Ísland er með fjögur stig eftir sigurinn á Hollendingum í kvöld, Ungverjar og Hollendingar eru með tvö stig en Portúgal ekkert. Öll liðin geta komist áfram og ekkert lið er úr leik.

Ísland er með 4 stig og markatöluna 57:52
Holland er með 2 stig og markatöluna 59:57
Ungverjaland er með 2 stig og markatöluna 59:61
Portúgal er án stiga og markatöluna 54:59

Ef lið enda jöfn að stigum ræður innbyrðis stigatala þeirra á milli hvort er ofar, eða innbyrðis markatala ef þrjú lið enda jöfn.

Ísland mætir Ungverjalandi klukkan 17.00 á þriðjudag og klukkan 19.30 leika Portúgal og Holland lokaleik riðilsins. 

Íslenska liðinu nægir jafntefli til að vinna riðilinn og fara í milliriðil. Þá þyrftu Hollendingar jafntefli gegn Portúgal til að fara áfram en þeir eru með innbyrðis sigur gegn Ungverjum og fara áfram ef liðin verða tvö jöfn að stigum með 3 stig. Ungverjar fengju annað sætið ef Portúgal ynni Holland og þá færu Ísland og Ungverjaland bæði með eitt stig í milliriðil.

Fyrir Ísland væri hagstæðast að Holland næði öðru sætinu en þá færi Ísland áfram með tvö stig í milliriðil.

Sigur á Ungverjalandi er að sjálfsögðu besta niðurstaðan. Þá fer Ísland í milliriðil með tvö stig, sama hvort það verður Portúgal eða Holland sem fer áfram. Ungverjar yrðu úr leik vegna óhagstæðra innbyrðis úrslita, sama hvernig leikur Portúgals og Hollands færi.

Tapi Ísland fyrir Ungverjalandi, og Holland vinnur ekki Portúgal, fer Ungverjaland með tvö stig í milliriðil og Ísland ekkert.

Ef Ísland tapar með einu marki fyrir Ungverjalandi fer liðið samt áfram með tvö stig ef Holland vinnur Portúgal. Þá yrðu Holland, Ísland og Ungverjaland öll með 4 stig og Ísland og Holland væru komin áfram.

Tapi íslenska liðið með tveimur mörkum eða meira gegn Ungverjum er staðan krítísk. Þá verður liðið að treysta á að Portúgal taki stig af Hollandi, annars er Ísland úr leik því liðið yrði í þriðja sæti með 4 stig, á eftir Hollandi og Ungverjalandi sem væru með betri innbyrðis markatölu í leikjum liðanna þriggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert