Aron Pálmarsson skoraði tímamótamark fyrir Ísland gegn Hollandi í B-riðlinum á EM karla í handknattleik í Búdapest í kvöld.
Þriðja mark Arons gegn Hollandi var mark númer 600 hjá kappanum fyrir íslenska landsliðið. Aron skoraði sex mörk gegn Hollendingum í kvöld og hefur skorað tíu mörk í fyrstu tveimur leikjunum á EM.
Aron er fyrirliði Íslands í mótinu en hann keppti fyrst á stórmóti með A-landsliðinu á EM 2010 í Austurríki þegar Ísland fékk bronsverðlaun.