„Við ætlum okkur að komast áfram“

Elvar Örn Jónsson sækir að marki Hollands í kvöld.
Elvar Örn Jónsson sækir að marki Hollands í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elvar Örn Jónsson segir íslensku landsliðsmennina ætla sér áfram í milliriðil á EM í handknattleik en það er ekki öruggt þótt liðið hafi unnið fyrstu tvo leikina í Búdapest. 

Ísland hefur unnið Portúgal og Holland en svo gæti farið að liðið þurfi að ná í stig gegn heimamönnum Ungverja í síðustu umferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn. 

„Það verður hörkuleikur og Ungverjar á heimavelli sem gefur þeim mikið. Þeir hafa aðeins verið að ströggla í mótinu en við vitum að þeir eru með frábært lið. Við vitum að þeir munu mæta dýrvitlausir í leikinn. Þeir ætla sér að ná árangri á EM á heimavelli. En við ætlum okkur líka að komast í milliriðilinn. Þetta verður úrslitaleikur,“ sagði Elvar Örn þegar mbl.is greip hann að leiknum loknum gegn Hollandi í kvöld. 

„Þetta gerist ekki betra varðandi stigin því við erum með tvo sigra eftir tvo leiki. En við þurfum að horfa aðeins til baka á þennan leik og sjá hvers vegna við gerðum ekki alveg eins vel og við viljum. Þeir opnuðu okkur full mikið á tímabili, sérstaklega í fyrri hálfleik. En það er mikilvægt að vinna svona leiki þar sem við náum ekki að spila af okkar bestu getu. Tvö stig eru hins vegar tvö stig og þau eru gríðarlega mikilvæg að þessu sinni.“

Stinga sér í gegnum öll göt

Elvar Örn sinnir mikilvægu hlutverki í vörninni og hann var ekki beinlínis öfundsverður í gær því hann þurfti á löngum köflum að gæta leikstjórnandans snjalla, Luc Steins, sem leikur með franska stórliðinu París SG. 

Elvar Örn og Viggó Kristjánsson reyna að stöðva Dani Baijens …
Elvar Örn og Viggó Kristjánsson reyna að stöðva Dani Baijens í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta er gríðarlega erfitt. Hollendingar hafa ekki tekið neitt eðlilega miklum framförum síðustu tvö ár. Þetta er ekki lengur lið sem við eigum að vinna heldur er þetta frábært lið. Þeir eru lágvaxnir en þessir þrír fyrir utan eru hrikalega hvikir. Þeir gera þetta ógeðslega vel í sókninni og stinga sér í gegnum öll göt. Um tíma náðum við aðeins að þétta vörnina. Við breyttum henni aðeins og fórum ekki eins langt út. Við þurfum að skoða hvað við gerðum vel þar,“ sagði Elvar Örn í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert