Aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon segir stöðuna á leikmannahópnum vera góða miðað við að liðið sé búið að spila tvo leiki á EM.
Eftir tvo sigra gegn Portúgal og Hollandi verður leikið við Ungverjaland á morgun og þá getur íslenska liðið tryggt sér sæti í milliriðil. Ísland getur raunar tryggt sér efsta sætið í riðlinum með jafntefli eða sigri.
„Við erum ánægðir enda búnir að vinna báða leikina og erum með 4 stig. Við erum með þetta í okkar höndum. Að sjálfsögðu hefði verið þægilegra að vera með þessu búnir að tryggja sig inn í milliiriðil eins og Danir og Þjóðverjarar sem eru komnir áfram úr sínum riðlum með 4 stig. Engu að síður erum við ánægðir með að vera með 4 stig og höfum að okkar mati spilað vel lengst af,“ sagði aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon þegar mbl.is tók hann tali í Búdapest í dag.
Gunnar segir að Ungverjar geti ógnað með margvíslum hætti og því verður í mörg horn að líta hjá Íslendingum í vörninni. „Ungverjar eru með stóra og sterka línumenn og því verður ærið verkefni að stöðva þá. Skotógnunin er mikil bæði vinstra og hægra megin. Leikstjórnendurnir búa þetta allt til, þ.e.a.s Lekai og sá sem leysir hann af þegar á þarf að halda. Þeir eru allt í öllu og eru góðir að búa til færi fyrir aðra. Að mínu mati verður áskorðun fyrir okkur að stöðva þá í vörninni.“
Ungverjar höfðu betur þegar þjóðirnar mættust á EM í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Gunnar segir að íslenska liðið geti lært af þeirri viðureign.
„Það eru ekki neinar svakalegar breytingar á þeirra liði síðan þá. Það er því hægt að læra mikið af þeim leik. Við leiddum lengst af í þeim leik og við eigum að nýta okkur þann leik í okkar undirbúningi. Þar er margt sem við getum nýtt okkur,“ sagði Gunnar og spurður um hvort allir leikmenn Íslands séu heilir heilsu sagði Gunnar svo vera. Einnig er rétt að taka fram að íslenski hópurinn fékk í dag niðurstöður úr nýjasta prófi vegna veirunnar og reyndust allir neikvæðir.
„Menn eru nokkuð ferskir. Auðvitað er eitthvað smávægilegt hér og þar en allir eru klárir í slaginn áfram. Menn eru bara í nokkuð góðu standi miðað við að tveir leikir séu búnir á fjórum dögum,“ sagði Gunnar Magnússon.