Það bíður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik verðugt verkefni í milliriðli á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu, fari svo að Ísland tryggi sér sæti í milliriðlakeppninni á morgun.
Ísland er í efsta sæti B-riðils keppninnar með 4 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína á mótinu.
Íslenska liðið mætir Ungverjalandi í úrslitaleik um sæti í milliriðli á morgun í Búdapest en Íslandi dugar jafntefli til þess að tryggja sig áfram og má líka tapa með einu marki.
Fari svo að Ísland komist áfram mætir liðið Danmörku og Svartfjallalandi úr A-riðli keppninnar og loks Frakklandi og Króatíu úr C-riðlinum.
Keppni í milliriðlum hefst 20. janúar en fyrsti mótherji Íslands í milliriðli yrði annaðhvort Danmörk eða Frakkland en sá milliriðill verður leikinn í Búdapest þannig að íslenska liðið yrði kyrrt í ungversku höfuðborginni ef það kæmist áfram.