„Eigum að njóta og vinna Ungverja“

Viktor Gísli Hallgrímsson og Aron Pálmarsson fagna sigrinum gegn Hollandi.
Viktor Gísli Hallgrímsson og Aron Pálmarsson fagna sigrinum gegn Hollandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta verður skemmtilegur leikur og massastemning í höllinni. Þetta verður öðruvísi leikur en á móti Hollandi. Það var mjög hraður leikur og mikið ping pong fannst mér. Þessi verður aðeins hægari og sennilega líkari þeim handbolta sem við þekkjum best,“ sagði markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest en í dag mætast Ísland og Ungverjaland klukkan 17 að íslenskum tíma á EM í handknattleik. 

Úrslitin í B-riðli Íslendinga ráðast í kvöld en í síðari leiknum eigast við Holland og Portúgal. Fyrir lokaumferðina eiga öll liðin von um að komast áfram en Íslendingar eru efstir með tvo sigra eftir tvo leiki. 

„Það er nánast hægt að kalla leik eins og þennan „once in a lifetime“ upplifun. Höllin er glæný og sú flottasta sem ég hef komið í persónulega. Ég held að við eigum bara að njóta og vinna Ungverjana. Það verður frábær stemning.“  

Viktor Gísli lék vel í síðari hálfleiknum á móti Portúgal.
Viktor Gísli lék vel í síðari hálfleiknum á móti Portúgal. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Í sókninni hjá Ungverjum er margvísleg ógn. Klókur leikstjórnandi og sterkir línumenn en einnig hávaxnar skyttur. Íslensku markverðirnir fá ef til vill meira af skotum á sig fyrir utan punktalínu í dag en í leikjunum til þessa?

„Vonandi. Það væri fín tilbreyting. Þeir eru vissulega með góðar skyttur sem geta hamrað á markið og það verður spennandi að mæta því. Við byrjuðum strax að kíkja á Ungverjarana eftir leikinn gegn Hollandi og svo hélt sú vinna bara áfram hjá okkur markvörðunum,“ sagði Viktor en þjálfarinn reyndi Ágúst Þór Jóhannsson vinnur nú með markvörðunum. 

„Hann hefur verið með okkur í þessu verkefni. Hann er aðeins með markmannsæfingar á æfingunum en er aðallega að hjálpa okkur að greina andstæðinganna og búa til leikáætlun með okkur. Hann hefur komið vel inn í þetta enda hefur hann mikla reynslu af þjálfun. Þetta er vel skipulagt hjá honum en hann kemur með aðeins punkta en maður fær hjá markmannsþjálfurum. Hann horfir á þetta með augum þjálfarans en ekki markvarðarins eins og markmannsþjálfarar gera oft. Við fáum þá líka innsýn í hvaða skot Gummi vill að við tökum. Ég hafði aldrei talað við Gústa áður og það er gaman að fá að kynnast honum,“ sagði Viktor Gísli í samtali við mbl.is í Búdapest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert