Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er komið áfram í milliriðla á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu með fullt hús stiga eftir 31:30-seiglusigur gegn gestgjöfunum í Ungverjalandi í B-riðli keppninnar í Búdapest í kvöld.
Íslenska liðið endaði með 6 stig eða fullt hús stiga þar sem liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og liðið tekur því 2 stig með sér í milliriðil 1, sama hvernig leikur Hollands og Portúgals fer síðar í kvöld.
Leikurinn var í járnum allan fyrri hálfleikinn en Bjarki Már Elísson skoraði fyrsta mark leiksins eftir hraðaupphlaup.
Liðin skiptust á að skora eftir þetta en Bence Bánhidi kom Ungverjum yfir, 6:5, þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum.
Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 12:10, eftir sautján mínútna leik en Ungverjar voru fljótir að jafna metin í 13:13.
Aron Pálmarsson kom Íslandi 17:16 yfir þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik en Richárd Bodó jafnaði metin í 17:17 með lokaskoti fyrri hálfleiks og staðan því jöfn í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var í járnum líkt og sá fyrri og Máté Lékai kom Ungverjum yfir í 20:19 í fyrsta sinn síðan á 9. mínútu eftir 35 mínútna leik.
Áfram skiptust liðin á að skora og Ísland leiddi með tveggja marka mun, 24:22, þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Mikið jafnræði var með liðunum eftir þetta en Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi einu marki yfir úr vítakasti, 30:29 þegar fimm mínútur voru ti leiksloka.
Ungverjar jöfnuðu áður en Sigvaldi Björn Guðjónsson kom Íslandi 31:30-yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
Björgvin Páll Gústafsson átti frábærar lokamínútur og varði þrjú afar mikilvæg skot frá Ungverjum og það gerði gæfumuninn.
Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk og Ómar Ingi Magnússon skoraði 8 mörk. Þá varði Björgvin Páll Gústafsson 14 skot í markinu, þar af eitt vítakast.
Ísland leikur í milliriðli 1 ásamt Danmörku, Svartfjallalandi, Frakklandi, Króatíu og annaðhvort Hollandi eða Portúgal en það ræðst síðar í kvöld.
Keppni í milliriðlum hefst 20. janúar og verður milliriðill Íslands leikinn í Búdapest.