„Leikirnir gerast varla meira djúsí“

Janus Daði Smárason fagnar sigrinum gegn Hollandi á EM í …
Janus Daði Smárason fagnar sigrinum gegn Hollandi á EM í Búdapest ásamt Elliða Snæ Viðarssyni og Ómari Inga Magnússyni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þegar Íslendingar höfðu misst dampinn í sókninni á móti Hollandi á EM karla í handknattleik átti þjálfarateymið ás uppi í erminni.

Janus Daði Smárason hafði beðið rólegur á hliðarlínunni í Búdapest á meðan Gísli Kristjánsson náði að hrella varnarmenn Portúgals og Hollands. Janusi var skipt inn á á lokakafla leiksins þegar spennan var sem mest og hjálpaði hann íslenska liðinu að landa sigri. 

„Jú það var jákvætt að koma inn á og finna fyrir trausti á afgerandi augnabliki í leiknum. Ég gat reynt að hjálpa til við að sigla stigunum heim á síðustu tíu mínútunum. Auk þess er fínt að komast aðeins inn á völlinn, koma við boltann og finna taktinn. Þetta var því mjög jákvætt fyrir mig,“ sagði Janus þegar mbl.is spurði hann út í þetta í Búdapest. 

Hvernig telur Janus Daði að heppilegast verði að mæta Ungverjunum í dag? „Ég held að við eigum að spila áfram á okkar styrkleikum vegna þess að sóknin hefur gengið mjög vel. Ég held að 6-0-vörn þeirra henti okkur bara ágætlega. Við eigum að vera duglegir að halda flæðinu gangandi og vera á sama tíma ágengir.“

Blaðamaður veltir fyrir sér hvort hægt sé að þreyta Ungverjana með því að keyra upp hraðann í leiknum. Ungverjarnir eru margir hverjir hávaxnir og þungir. Til dæmis skytturnar bæði vinstra og hægra megin. Það eru menn sem Ungverjar þurfa á að halda í sókninni. Ef íslenska liðið reynir að sækja hratt allan leikinn þá gætu þessir menn mögulega gefið eftir þegar líður á. Hollendingar gerðu það og unnu Ungverja. Hvað segir Janus um þetta? Halda slíkar pælingar vatni? 

„Já já. Þeir eru með rosa drumba inn á og þetta verður þeirra þriðji leikur. Það má því alveg setja þetta upp þannig. Okkar verður að halda uppi góðum hraða og við erum með breiðan hóp. Við ættum að vera ennþá með nokkuð ferska fætur og það gæti verið kostur fyrir okkur,“ sagði Janus en stemningin á leiknum gæti orðið mögnuð þar sem heimamenn þurfa sárlega á stigunum að halda til að eiga möguleika á að komast áfram. 

Hollendingar taka hraustlega á móti Janusi Daða á lokakaflanum í …
Hollendingar taka hraustlega á móti Janusi Daða á lokakaflanum í leik Íslands og Hollands. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Leikirnir gerast varla meira djúsí og hvað þá í landsliðsbúningnum. Ég held að við hlökkum allir til að mæta í þennan leik, fara í treyjuna, fá smá fiðring í magann og sjá hvernig andrúmsloftið verður. Kórónuveiran hefur gert það að verkum að stemningin í deildakeppnunum hefur ekki verið neitt spes. Þess vegna er kærkomið að koma hingað með landsliðinu og gleyma sér í mómentinu,“ sagði Janus Daði þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert