Létu veiruvesenið ekki stöðva sig

Alfreð Gíslason er kominn með lið sitt áfram og með …
Alfreð Gíslason er kominn með lið sitt áfram og með tvö stig. AFP

Alfreð Gíslason og hans menn í þýska karlalandsliðinu í handknattleik létu kórónuveiruvesenið ekki stöðva sig í dag og unnu Pólverja á sannfærandi hátt, 30:23, í lokaumferð D-riðils Evrópukeppninnar í Bratislava.

Þýska liðið vann þar með riðilinn með fullu húsi, fékk sex stig, og fer með sigurinn í dag með sér í milliriðil tvö, en Pólverjar fengu fjögur stig og fylgja Þjóðverjum þangað. Hvíta-Rússland og Austurríki eru bæði úr leik, án stiga, og mætast í þýðingarlausum leik í kvöld.

Christoph Steinert skoraði 9 mörk fyrir Þjóðverja, Johannes Golla og Julian Köster 6 hvor og Philipp Weber 4. Hjá Pólverjum var Arkadiusz Moryto með 8 mörk og Szymon Sicko 6.

Þjóðverjar misstu sjö leikmenn úr sínum hópi fyrir leikinn vegna kórónuveirusmita og fimm nýir leikmenn mættu til Bratislava á síðustu stundu. Alfreð var því aðeins með 14 menn í stað 16 í hópnum í dag og bara einn markvörð, hinn gamalreynda Johannes Bitter, sem var einn fimmmenninganna sem mættu til leiks í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert