„Þetta er bara rétt að byrja“

Guðmundur getur leyft sér að brosa í kvöld.
Guðmundur getur leyft sér að brosa í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er gríðarlega stoltur og glaður,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við mbl.is eftir að sigurinn gegn Ungverjum var í höfn í Búdapest í kvöld. 

Þar af leiðandi fékk Ísland fullt hús stiga í riðlinum og fer áfram í milliriðil með tvö stig. Fyrst leikurinn gegn Ungverjalandi vannst þá bætast alla vega við fjórir leikir í milliriðlinum. „Árangur liðsins í þessum leik var magnaður. Sóknin sem drengirnir spiluðu í fyrri hálfleik var nánast fullkomin. Það er hægt að segja það. Í síðari hálfleik lentum við í smá basli í lokin. Stressið var mikið enda var mikið undir í leiknum. En á endanum unnum við leikinn. Við vorum í vandræðum í vörninni í fyrri hálfleik og réðum ekki við línumanninn þeirra. Við fórum yfir það í hálfleik og spiluðum vörnina aftar í síðari hálfleik. Þá var markmiðið að loka á línuna og það tókst mjög vel. Við ætluðum að fá þá í skotin fyrir utan og það gekk eftir. Þessa vörn æfðum við í æfingavikunni í nóvember. Við notuðum þá viku til að æfa annað afbrigði af vörninni sem er flatari 6-0 vörn.“

Gunnar Magnússon, Guðmundur og Elliði Snær Viðarsson ganga til búningsherbergja …
Gunnar Magnússon, Guðmundur og Elliði Snær Viðarsson ganga til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik. Þá var staðan 17:17. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Blaðamanni þótti snjallt að setja Arnar Freyr Arnarsson inn á í vörnina þegar leið á leikinn til þess að halda betur aftur af línunmanninum. Arnar er nánast sá eini í hópnum sem hefur líkamlega burði til þess, sentimetra og kíló. 

„Já það var planið og hann gerði það frábærlega vel. Ég var mjög ánægður með hans innkomu. Hann stóð sig mjög vel. Hann hefur hæðina og þyngdina sem hjálpaði okkur í þessari stöðu. Við höfum talað mikið um andann í liðinu. Við höfum talað út frá hjartanu. Við segjum ekki að það sé góður andi ef það er ekki tilfellið. Við höfum góða tilfinningu fyrir því sem við erum að gera og þeirri leikáætlun sem við notum hverju sinni. Leikmenn eru mjög virkir þátttakendur í þessu og nú verðum við að fylgja þessu eftir. Þetta er bara rétt að byrja núna,“ sagði Guðmundur ákveðið en hann hefur verið lengi að og upplifað ýmislegt sem leikmaður og þjálfari. 

Guðmundur í kunnglegri stöðu á hliðarlínunni.
Guðmundur í kunnglegri stöðu á hliðarlínunni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þrátt fyrir alla hans reynslu þá hlýtur það samt sem áður að vera geysileg upplifun að spila leik sem þennan þar sem útkoman skiptir miklu máli, fyrir framan 20 þúsund áhorfendur á útivelli. 

„Þetta var rosaleg upplifun og prófsteinn á liðið. Við þessar aðstæður gerði liðið þetta nánast óaðfinnanlega. Við erum að átta okkur á því sem lið hvert við erum komnir. Við erum búnir að tala á jákvæðum nótum fyrir keppnina og meðan á henni stendur. Það er mikilvægt líka að átta sig á því þegar maður hefur ákveðna færni og getu í hópnum eins og við höfum. Og viljinn og andinn í liðinu er eins og hann er. Það þarf að fara saman,“ sagði Guðmundur ennfremur við mbl.is þegar niðurstaðan lá fyrir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert