Landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson segir enga ástæðu fyrir Íslendinga að fara ekki bjartsýnir inn í milliriðilinn á EM karla í handknattleik í Búdapest þótt þar bíði firnasterkir andstæðingar.
„Það var auðvitað frábært að vakna í morgun. Ég er nú bara ferskur en Ýmir [Örn Gíslason] herbergisfélagi minn var töluvert þreyttari en ég eftir gærdaginn. Ég er ótrúlega glaður. Fyrsta markmiðinu er náð sem var stórt markmið. Það var ekkert grín að þurfa að vinna Ungverjana á þeirra heimavelli til að komast áfram. Nú þurfum við að taka einn leik fyrir í einu og sjá hvað gerist,“ sagði Viggó þegar mbl.is ræddi við hann í dag.
Viggó sagði leikinn gegn Ungverjum í Búdapest í gær hafa minnt sig á leikinn gegn Dönum sem Ísland vann í Malmö á EM 2020.
„Mér fannst þetta líkjast svolítið Danaleiknum í Malmö fyrir tveimur árum. Þá voru reyndar 12 þúsund áhorfendur en í gær voru 20 þúsund. Þetta var úrslitaleikur því ef við hefðum tapað fyrir Ungverjalandi hefðum við verið á leiðinni heim. Það er mjög gott að hafa staðist það próf og mikil reynsla sem liðið fær út úr því. Við þurfum að reyna að soga allt út úr þessu sem við getum fengið.“
Er Viggó bjartsýnn fyrir milliriðilinn? „Já af hverju ekki? Það má alveg segja að Danirnir séu með fáránlega gott lið á pappírunum. Sömuleiðis Frakkarnir og Króatarnir. Ég held að við séum einnig með hörkulið á pappírunum og höfum sýnt það í riðlakeppninni. Á góðum degi getum við unnið öll þessi lið. Við þurfum að undirbúa okkur vel ásamt því að hugsa um okkur og hvað við gerum vel,“ sagði Viggó Kristjánsson í samtali við mbl.is í Búdapest.