„Helvítis veiran náði mér“

Ólafur Andrés Guðmundsson á hliðarlínunni gegn Ungverjalandi.
Ólafur Andrés Guðmundsson á hliðarlínunni gegn Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ólafur Andrés Guðmundsson var einn þriggja leikmanna íslenska karlalandsliðsins í handknattleik sem greindist með kórónuveiruna í dag.

Ásamt Ólafi greindust þeir Björgvin Páll Gústafsson og Elvar Örn Jónsson einnig með veiruna en íslenska liðið er nú statt í Búdapest þar sem liðið tekur þátt í Evrópumótinu 2022 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Ísland mætir Danmörku í fyrsta leik sínum í milliriðli 1 á morgun í Búdapest en íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni gegn Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi og fer því með fullt hús stiga inn í milliriðlakeppnina.

Þeir Björgvin Páll, Elvar Örn og Ólafur verða allir fjarverandi á morgun þegar Ísland mætir Danmörku en þeir þurfa að vera í einangrun næstu fimm daga hið minnsta og skila tveimur neikvæðum PCR-prófum áður en þeir mega snúa aftur á keppnisvöllinn.

„Helvítis veiran náði mér,“ skrifaði Ólafur á samfélagsmiðilinn Instagram í kvöld.

„Takk fyrir allar kveðjurnar,“ bætti landsliðsmaðurinn við en hann er samningsbundinn Montpellier í Frakklandi.

Instagram-færsla Ólafs.
Instagram-færsla Ólafs. Ljósmynd/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert