Smit í íslenska hópnum

Leikmenn íslenska liðsins fagna eftir sigurinn gegn Ungverjalandi í gær.
Leikmenn íslenska liðsins fagna eftir sigurinn gegn Ungverjalandi í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þrír leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handknattleik greindust með kórónuveiruna í dag. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í kvöld.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson.

Við greiningu sýna komu í ljós þrjú jákvæð sýni og eru viðkomandi leikmenn komnir í einangrun en með mjög lítil einkenni,“ segir í tilkynningu HSÍ.

Ekki verður kallað á nýja leikmenn í leikmannahópinn að sinni,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Ísland mætir Danmörku í fyrsta leik sínum í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu annað kvöld en ljóst er að enginn af smituðu leikmönnunum verður með í leiknum.

Björgvin Páll og Elvar Örn hafa verið í stórum hlutverkum hjá íslenska liðinu á mótinu til þessa en Ísland hefur unnið alla leiki sína í keppninni.

Þeir leikmenn sem greinast með kórónuveiruna á mótinu þurfa að fara í fimm daga einangrun hið minnsta og skila neikvæðum niðurstöðum úr tveimur PCR-prófum til þess að mega snúa aftur á keppnisvöllinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert