Tveir af lykilmönnum íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson, greindust í morgun með jákvæð smit fyrir kórónuveirunni.
HSÍ greindi frá tíðindunum rétt í þessu en í tilkynningu segir að þeir hafi greinst á hraðprófi í morgun og séu komnir í einangrun. Beðið sé eftir niðurstöðu úr PCR-prófi hjá þeim.
Þetta er að sjálfsögðu gríðarlegt áfall fyrir íslenska landsliðið sem mætir Dönum klukkan 19.30 í kvöld á Evrópumótinu í Búdapest.
Áður höfðu Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson greinst með veiruna og eru komnir í einangrun, og ljóst að þeir verða ekki með gegn Dönum í kvöld eða gegn Frökkum á laugardaginn.