„Himnarnir hafa hrunið á íslenska liðið sem komst svo glæsilega í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handbolta.“
Þetta segir franski handknattleiksmiðillinn HandNews um áfallið sem íslenska karlalandsliðið varð fyrir í dag þegar í ljós kom að fimm leikmenn eru smitaðir af kórónuveirunni.
Ísland mætir Frakklandi í öðrum leik sínum í milliriðlakeppninni í Búdapest á laugardaginn og ljóst að fimmmenningarnir missa líka af þeim leik, eins og af Danaleiknum í dag.
„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir íslenska liðið, ekki síst vegna þess að það hefur milliriðlakeppnina með tvö stig og getur því hæglega látið sig dreyma um sæti í undanúrslitum mótsins,“ segir ennfremur í grein HandNews.