Sebastian Barthold átti stórleik fyrir Noreg þegar liðið vann stórsigur gegn Póllandi í milliriðli II á Evrópumóti karla í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í Bratislava í dag.
Leiknum lauk með 42:31-sigri norska liðsins en Barthold skoraði tíu mörk úr tíu skotum í leiknum.
Staðan var jöfn, 6:6, eftir tíu mínútna leik en þá tóku Norðmenn öll völd á vellinum og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 21:15.
Norðmenn juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik og Pólverjar voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil.
Sander Sagosen fór einnig mikinn fyrir Norðmenn og skoraði níu mörk en Arkadiusz Moryto var markahæstur Pólverja með ellefu mörk.
Norðmenn eru með 2 stig í fimmta sæti milliriðils II en Pólland er í neðsta sætinu án stiga.