Slóvenska handknattleikssambandið sagði Svíanum Ljubomir Vranjes upp störfum í gær eftir að lið Slóvena féll óvænt úr keppni á Evrópumóti karla í Ungverjalandi og Slóvakíu. En hann var ekki lengi atvinnulaus.
Þýska félagið Rhein-Neckar Löwen, sem Ýmir Örn Gíslason leikur með, tilkynnti nefnilega í kjölfarið að Vranjes hefði verið ráðinn þjálfari liðsins til loka þessa tímabils en að því loknu á Sebastian Hinze að taka við þjálfun Löwen.
Vranjes, sem er 48 ára gamall, varð þrisvar Evrópumeistari og einu sinni heimsmeistari með sænska landsliðinu á árunum 1998 til 2002. Hann hefur þjálfað Slóvena undanfarin þrjú ár og var áður m.a. með landslið Ungverja og Serba og félagsliðin Kristianstad, Vezsprém og Flensburg.