Hampus Wanne átti stórleik fyrir Svíþjóð þegar liðið vann öruggan sigur gegn Rússlandi í milliriðli II á Evrópumótinu í handknattleik í Bratislava í dag.
Leiknum lauk með 29:23-sigri sænska liðið en Wanne gerði sér lítið fyrir og skoraði níu mörk úr tíu skotum.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Svíar skoruðu þrjú af fjórum síðustu mörkum hálfleiksins og leiddu 16:13 í hálfleik.
Svíar voru með yfirhöndina í síðari hálfleik og Rússum tókst aldrei að minnka forskot sænska liðsins. Svíar voru svo mun sterkari á lokamínútunum og unnu sannfærandi sigur.
Valter Chrintz skoraði fimm mörk fyrir Svía og þá varði Andreas Palicka fimmtán skot í markinu og var með 39% markvörslu.
Aleksander Ermakov var markahæstur Rússlands með fimm mörk og Pavel Andreev skoraði fjögur mörk.
Svíþjóð er í þriðja sæti milliriðils II með 2 stig en Rússar eru í fjórða sætinu, einnig með 2 stig.