Einhvern tíma hefðu það þótt sérstök tíðindi að Ísland mætti einungis með fjórtán leikmenn í leik gegn Dönum í milliriðli á stórmóti þegar heimilt er að tefla fram sextán. Það gerðist á EM í Búdapest í gær. Þótt íslensku landsliðsmennirnir séu margir hverjir eldsnöggir þá tókst kórónuveirunni skæðu engu að síður að ná í skottið á þeim.
Ekki þarf endilega að eyða miklu plássi hér til að útskýra fréttir gærdagsins og miðvikudagskvöldsins en uppstilling íslenska liðsins gerbreyttist vegna forfalla. Á innan við sólarhring var tilkynnt um sex smit í íslenska landsliðinu. Og það var ekki eins og þar væru Pétur og Páll á ferðinni heldur Aron fyrirliði og Björgvin Páll. Markaskorarinn Bjarki Már, Gísli Þorgeir sem leikið hefur við hvern sinn fingur á mótinu og varnarjaxlinn Elvar Örn. Sá sjötti var Ólafur Guðmunds og þá má segja að fjórir reyndustu menn landsliðsins hafi allir farið í einangrun á einu bretti. Menn hafa kveinkað sér af minna tilefni en þessu í íþróttasögunni.
Mikill sómi var að framgöngu Íslendinga í leiknum í ljósi stöðunnar og hversu lítinn tíma menn höfðu til að bregðast við. Danmörk sigraði 28:24 og náði í bæði stigin en náði aldrei að hrista íslenska liðið af sér. Eru Danir þó heimsmeistarar í íþróttinni, glíma við fá forföll og fengu tveggja daga hvíld á milli leikja.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag