„Af því ég er bara svo góður“

Viktor hefur haldið sig í markinu frá því að viðtalið …
Viktor hefur haldið sig í markinu frá því að viðtalið var tekið fyrir fimmtán árum síðan. Ljósmynd/Samsett

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður, segir sigurinn í kvöld gegn Frökkum hafa verið besta leik lífs síns. Viktor var valinn maður leiksins og varði 15 skot og varði 44% af marktilraunum Frakka.

Ísland endaði á því að vinna frækinn sigur gegn ríkjandi Ólympíumeisturunum en úrslitin gefa þeim góða möguleika í milliriðli Evrópumótsins. 

Í skarð Björgvins

Björgvin Páll Gústavsson hefur staðið sig vel í marki Íslands það sem af er móti en greindist með kórónuveiruna á miðvikudaginn. Því þurfti Viktor Gísli að stíga inn í og fylla í skarðið. 

Björgvin var ánægður með Viktor og sagði í færslu á Instagram nú í kvöld að ný stjarna hefði fæðst með myndum af sér og Viktori. 

Handviss frá unga aldri

Viktor hefur spilað í félagsliðinu GOG á Fjóni í Danmörku frá árinu 2019 en hann spilaði áður með Fram.

Í viðtali við Morgunblaðið árið 2007, þegar Viktor var einungis 6 ára gamall, var hann spurður hvers vegna hann vildi spila í markinu. Þá spilaði Viktor knattspyrnu með Fram– líka sem markvörður. 

„Af því ég er bara svo góður,“ svaraði Viktor þá í einlægni. 

Næsti leikur Íslands er gegn Króatíu á mánudaginn klukkan 14:30 en eftir frammistöðu kvöldsins í kvöld má leiða líkur að því að Viktor muni standa á milli stanganna þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert