Danir eru einir á toppnum í milliriðli I á EM karla í handbolta eftir 27:25-sigur á Króötum í Búdapest í kvöld. Ísland leikur í sama riðli.
Danska liðið hefur nú unnið alla fimm leiki sína á mótinu og er fyrir vikið með sex stig í riðlinum, tveimur stigum meira en Ísland og Frakkland.
Danir voru með frumkvæðið nánast allan leikinn en Króatar þó ekki langt undan. Var staðan í hálfleik 12:11 og vann danska liðið seinni hálfleikinn einnig með einu marki.
Mikkel Hansen var markahæstur í danska liðinu með átta mörk og gaf hann einnig ellefu stoðsendingar. Mathias Gidsel og Emil Jakobsen gerðu fimm mörk hvor. Marino Maric skoraði átta fyrir Króata, sem eru án stiga á botni riðilsins.
Næsti leikur króatíska liðsins er gegn Íslandi á mánudaginn kemur.