Erlingur Richardsson, þjálfari karlalandsliðs Hollands í handknattleik, hefur greinst með kórónuveiruna og mun því ekki geta stýrt liðinu í næstu leikjum í milliriðli 1 á EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Holland á leik gegn Svartfjallalandi í dag og mætir svo Danmörku og Króatíu á næstu dögum.
Ljóst er að Erlingur getur ekki verið á hliðarlínunni í neinum þessara þriggja leikja sem Holland á eftir í milliriðlinum þar sem hann greindist í dag og leikirnir fara fram í dag, 24. og 26. janúar.
Allir þeir sem smitast á mótinu þurfa að fara í fimm daga einangrun og sýna fram á tvö neikvæð próf til þess að mega taka þátt í leikjum.
Markvarðaþjálfarinn Gerrie Eijlers greindist einnig með veiruna í morgun, en hann var til taks á varamannabekknum í 24:34-tapi Hollands gegn Frakklandi á fimmtudag eftir að markvörðurinn Dennis Schellekens reyndist smitaður.
Aðalmarkvörður liðsins, Bart Ravensbergen, er einnig smitaður og því var kallað á René de Knegt, sem er eini leikfæri markvörður Hollands um þessar mundir.