Dika Mem, einn besti handboltamaður Frakka og leikmaður Barcelona, sagði að Íslendingar hefðu verið betri á öllum sviðum handboltans í kvöld þegar liðin mættust á EM í Búdapest og Ísland sigraði 29:21.
„Þeir voru betri en við á öllum sviðum leiksins, þeir voru sterkari og með frábæran markvörð og við getum ekkert sagt. Við náðum okkur aldrei á strik. Ísland valtaði yfir okkur, það má alveg segja það. Nú er leiðin í undanúrslitin orðin flókin en við höfum samt örlögin í okkar höndum og getum komist áfram með því að vinna tvo síðustu leikina. En nú erum við ekki lengur með forskotið sem við höfðum þegar við hófum milliriðilinn. Héðan í frá megum við ekki misstíga okkur,“ sagði Dika Mem við Handnews eftir leikinn.
Hinn þrautreyndi Nikola Karabatic sagði að franska liðið hefði saknað þjálfarans, Guillaumes Gilles, sem er í einangrun vegna kórónuveirusmits.
„Það var sérstakt að vera ekki með Guillaume á bekknum en Erick Mathé er líka mjög fær þjálfari. En svona eru aðstæður í keppninni í þetta sinn og við getum ekki látið það stöðva okkur. Þótt við værum ekki með þjálfarann eigum við að gera betur en þetta. Við spiluðum í kvöld okkar versta leik í langan tíma og Ísland átti sinn besta leik,“ sagði Karabatic.