Svíþjóð vann í kvöld 25:21-sigur á Þýskalandi í milliriðli II á EM karla í handbolta. Staðan í hálfleik var 12:10. Alfreð Gíslason þjálfar þýska liðið.
Sænska liðið byrjaði betur og komst í 5:2 snemma leiks en Þýskaland minnkaði muninn í 11:10 áður en Svíþjóð skoraði síðasta markið í fyrri hálfleik.
Þjóðverjar jöfnuðu í 14:14 snemma í seinni hálfleik en Svíar voru snöggir að komast aftur yfir og sigla góðum sigri í höfn.
Hampus Wanne var markahæstur í sænska liðinu með sex mörk og skoruðu fjórir samherjar hans þrjú mörk hver. Julian Köster skoraði fjögur fyrir Þýskaland en Þjóðverjar hafa lent illa í kórónuveirunni á mótinu, líkt og Íslendingar.
Svíþjóð er öðru sæti með sex stig, eins og topplið Spánar sem á leik til góða gegn Noregi í kvöld. Noregur er með fjögur í þriðja sæti og Rússland þrjú í fjórða. Þýskaland er í fimmta sæti með tvö stig og úr leik í baráttunni um sæti í undanúrslitum.