Danir urðu fyrstir til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik í dag þegar þeir sigruðu Hollendinga mjög örugglega í Búdapest, 35:23.
Danir eru með fullt hús stiga í milliriðli eitt, 8 stig. Ísland er með 4 stig, Frakkland 4, Holland 2, Svartfjallaland 2 og Króatía 2 stig.
Frakkland og Svartfjallaland eiga eftir að mætast í kvöld og Frakkar eiga því möguleika á að ná Dönum að stigum og taka af þeim efsta sætið með því að vinna báða sína leiki en Frakkar og Danir mætast í lokaleik riðilsins á miðvikudagskvöldið.
Hollendingar voru áfram án Erlings Richardssonar þjálfara sem er í einangrun með kórónuveiruna. Sama er að segja um markahæsta leikmann liðsins, Kay Smits, og lykilmaðurinn Luc Steins kom ekkert við sögu hjá Hollendingum í dag, líklega vegna meiðsla.
Danir gerðu nánast út um leikinn í fyrri hálfleik með því að ná yfirburðastöðu en staðan var 21:12 í hálfleik. Hollendingar náðu að laga stöðuna aðeins í seinni hálfleik en síðan jókst munurinn á ný.
Mathias Gidsel skoraði 9 mörk fyrir Dani, Mikkel Hansen 7 og færeyski hornamaðurinn Johan Hansen 7. Dani Beijens var atkvæðamestur Hollendinga með 6 mörk.